Við horfum bjartsýnir til framtíðar og hlökkum til að takast á við skemmtileg verkefni á komandi mánuðum
V-one er nýtt íslenskt fyrirtæki sem sérhæfir sig í þjálfun og ráðgjöf fyrir flugmenn og flugfélög á alþjóðavísu. Fyrirtækið var stofnað af teymi þjálfunarflugstjóra Icelandair sem allir búa yfir víðtækri reynslu í starfi. Teymið samanstendur af þeim Friðbirni Oddssyni, Hergli Sigurðssyni, Herði Má Þorvaldssyni og Kristni Páli Guðmundssyni. Hörður Már segir að uppsagnir sem Icelandair neyddist til að grípa til vegna kórónuveirufaraldursins hafi verið kveikjan að stofnun félagsins.
„Við sem stöndum að baki V-one hittumst til að spá í hvað við gætum farið að gera og þá kom upp þessi hugmynd. V-one starfar á alþjóðlegum flugmarkaði með það að leiðarljósi að nýta þá umgjörð, starfskrafta og þekkingu sem skapast hefur með íslenskum flugrekstri síðustu áratugi,” segir Hörður Már en að hans sögn hefur V-one þegar tekið að sér þjálfun fyrir erlend flugfélög, sem búi til ný og gjaldeyrisskapandi störf og tekjur fyrir ferðaþjónustuna.
V-one hefur gengið frá samningi við TRU Flight Training Iceland, þjálfunarsetur sem staðsett er að Flugvöllum í Hafnarfirði og er í meirihlutaeigu Icelandair. Þar hefur V-one aðgang að Boeing 757, 767 og 737 flughermum, ásamt öðrum útbúnaði sem snýr að þjálfun áhafna.
Hörður Már segir að þessa stundina vinni V-one hörðum höndum við að hafa samband við flugfélög víða um heim til að kynna þjónustu sína fyrir þeim. Með tilkomu V-one sé jafnframt flugmönnum sem misst hafa vinnuna hjá íslenskum flugfélögum á undanförnum mánuðum gert kleift að viðhalda starfsréttindum sínum og uppfylla kröfur um árlega endurþjálfun. Með því verði þeir samkeppnishæfir þegar flugiðnaðurinn tekur við sér á ný.
„Fraktflugfélög víða um Evrópu eru í mannaráðningum núna þannig að við erum að hjálpa íslenskum flugmönnum sem eru að fara í atvinnuviðtöl og próf hjá erlendum félögum að undirbúa sig. Það er sæmilega mikið að gera í því núna og við erum að nýta flughermana í þjálfunarsetrinu í Hafnarfirði undir þá starfsemi,” segir Hörður Már. Hann reiknar með að verkefni félagsins verði mest tengd þessari þjálfun íslenskra flugmanna meðan veiran gengur yfir. „En til framtíðar erum við mest að einblína á að geta þjónustað erlend flugfélög,” segir hann.
Hörður segir að sambærileg ráðgjafa- og þjálfunarfyrirtæki séu þegar í rekstri á alþjóðlegum flugmarkaði og mörg flugfélög hafi séð hag sinn í því að nýta sér þjónustu þeirra með hagræðingu í rekstri að leiðarljósi. Því hafi V-one teymið fulla trú á að félagið sé komið til að vera.
Þá segir hann að þó að þjálfun flugmanna hafi verið aðaláhersla félagsins hingað til stefni það einnig á að bjóða upp á þjálfun fyrir flugfreyjur og -þjóna. „Við erum í tengslum við fólk sem hefur mikla reynslu af því að þjálfa flugliða og hefur áhuga á að vinna með okkur. Við stefnum því á að veita heildstæða þjálfun fyrir flugáhafnir, bæði fyrir fólkið sem starfar inni í flugstjórnarklefa sem og þá sem starfa í farþegarýminu.”
Sjá frétt Viðskiptablaðsins: https://www.vb.is/frettir/fyrrum-icelandair-lidar-stofna-V-one/164915/